Afstaða stjórnmálaflokkanna
23. nóvember 2024
Evrópuhreyfingin lagði þrjár spurningar um Evrópumál fyrir alla stjórnmálaflokkana sem bjóða fram í öllum kjördæmum í komandi kosningum. Spurt var um afstöðu flokkanna til hugsanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort taka skuli upp aðildarviðræður við Evrópusambandið að nýju og um almenn viðhorf þeirra til Evrópusambandsins og hagsmuna Íslands í því samhengi. Allir flokkarnir hafa nú gert grein fyrir afstöðu sinni.
Hægt er að sjá svör flokkanna í heild sinni ef smellt er á heiti þeirra í textanum hér fyrir neðan.
Spurning 1
Mun flokkurinn beita sér fyrir því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á næsta kjörtímabili um framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB?
Píratar og Viðreisn svara því afdráttarlaust játandi. Samfylkingin er jákvæð en ekki afdráttarlaus. Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Lýðræðisflokkurinn, Miðflokkurinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Sósíalistar svara allir afdráttarlaust nei. Vinstri græn svara spurningunni með afar óljósum hætti en verða hér felld í þann flokk að þau muni ekki beita sér fyrir slíkri atkvæðagreiðslu.
Flokkur Fólksins Nei
Framsóknarflokkurinn Nei. Ísland er ekki umsóknarríki. Sambandið tiltekur níu ríki sem umsóknarríki og Ísland er ekki þar á meðal. Ætti að hefja aðildarviðræður að nýju þarf landið að sækja um aftur. Ef það væri vilji íslenskra stjórnvalda að leggja slíkt til er eðlilegt að bera undir þjóðina hvort leggja eigi fram nýja umsókn áður en það er gert.
Lýðræðisflokkurinn Nei
Miðflokkurinn Nei
Píratar Já
Samfylking Samfylkingin er Evrópusinnaður flokkur en leggur ekki áherslu á framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB á næsta kjörtímabili. Flokkurinn mun beita sér fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald viðræðna á réttum tímapunkti, til dæmis undir lok kjörtímabils eða samhliða næstu Alþingiskosningum.
Sjálfstæðisflokkur Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki eiga frumkvæði að því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald aðildarviðræðna Íslands og ESB enda er hann andvígur aðild Íslands að ESB.
Sósíalistaflokkurinn
Nei. Sósíalistaflokkurinn lítur svo á að það séu önnur mál sem séu meira aðkallandi í stöðunni í dag. Það er neyðarástand í húsnæðismálum og fjöldinn allur af fólki hefur ekki í sig og á svo dæmi séu tekin.
Viðreisn Já
Vinstrihreyfingin grænt - framboð
VG leggur ríka áherslu á samstarf við önnur Evrópulönd en telur hagsmunum Íslands betur borgið utan Evrópusambandsins en innan. Hreyfingin telur þjóðaratkvæðagreiðslu forsendu ákvörðunar um framhald viðræðna og leggur ríka áherslu á upplýsta umræðu í samfélaginu áður en haldið er í slíkan leiðangur.
Umræða um upptöku evru verður ekki rofin úr samhengi við umræðu um Evrópusambandsaðild. Upptaka annars gjaldmiðils en íslensku krónunnar hefur í för með sér afsal sjálfstæðrar peningastefnu og ásamt áhrif á stjórn ríkisfjármála sem þarfnast vandaðrar umræðu í samfélaginu, um kosti og galla. Slík umræða hefur ekki hefur farið fram. VG er tilbúin í þá umræðu og telur að taka þurfi næstu skref í stjórn peningamála til rótækrar endurskoðunar.
Spurning 2
Mun flokkurinn beita sér gegn því að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla á næsta kjörtímabili um framhald aðildarvviðræðna Íslands og ESB?
Framsóknarflokkurinn, Lýðræðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn svara því afdráttarlaust játandi að þeir muni beita sér gegn slíkri atkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu. Flokkur fólksins, Píratar, Samfylking, Sósíalistar og Viðreisn svara því afdráttarlaust neitandi að þessir flokkar muni beita sér gegn slíkri atkvæðagreiðslu á kjörtímabilinu.Vinstri græn svara spurningunni með afar óljósum hætti og erfitt er að átta sig á því hvaða afstöðu þau muni taka.
Flokkur Fólksins Nei
Framsóknarflokkurinn Sjá svar 1
Lýðræðisflokkurinn Já
Miðflokkurinn Já
Píratar Nei
Samfylking Nei
Sjálfstæðisflokkur Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda fullveldi Íslands og telur að aðild að ESB yrði þjóðinni ekki í hag. Því er vandséð að flokkurinn muni ekki kjósa gegn þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhald viðræðna, enda er ekki knýjandi ákall um slíka atkvæðagreiðslu meðal þjóðarinnar.
Sósíalistaflokkurinn Nei. Það er í stefnu Sósíalista að það skuli ávallt fara fram þjóðaratkvæðagreiðslur um grundvallarmál eins og inngöngu í ESB. Flokkurinn myndi því styðja slíkt komi það fram.
Viðreisn Nei
Vinstrihreyfingin grænt - framboð Sjá svar við spurningu 1.
Spurning 3
Telur flokkurinn að aðild að ESB og upptaka Evru yrði í stórum dráttum til hagsbóta fyrir Ísland?
Samfylking og Viðreisn svara þessari spurningu afdráttarlaust játandi. Píratar eru jákvæðir í afstöðu sinni en hún er ekki afdráttarlaus. Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurinn, Lýðræðisflokkurinn, Miðflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn segja allir afdráttarlaust nei. Vinstri græn svara spurningunni með afar óljósum hætti og ekki unnt að átta sig á því afstöðu þeirra. Þá er afstaða Sósíalista til þessarar spurningar fremur óljós.
Flokkur Fólksins Nei
Framsóknarflokkurinn Nei. Framsókn telur hagsmunum Íslands best borgið með því að vera áfram sjálfstæð og fullvalda þjóð utan Evrópusambandsins, og að þjóðaratkvæðagreiðsla um inngöngu Íslands í Evrópusambandið yrði að fara fram skildu stjórnvöld íhuga slíka ákvörðun.
Framtíðarskipulag Evrópu mun taka breytingum á næstu misserum og því er brýnt að tryggja efnahags- og viðskiptalega hagsmuni Íslands gagnvart Bretlandi eins og samið hefur verið um. Stefnumótun í utanríkismálum á og skal miðast að þessum breytta heimi.
EES-samningurinn er mikilvægasti og umfangsmesti efnahagssamningur Íslands og því þarf að tryggja skilvirka framkvæmd hans í aukinni samvinnu við löggjafarvaldið. Samstarfið hefur tekið miklum breytingum á þeim tíma og frekari breytinga er að vænta. Þau tækifæri sem Íslendingum hafa opnast með tilkomu EES-samningsins eru ótvíræð og mörg. Framsókn telur að Ísland eigi að vera áfram aðili að EES-samstarfinu, en með aðild að því njótum við þegar allra þeirra kosta sem Evrópusambandið hefur upp á að bjóða.
Lýðræðisflokkurinn Nei
Miðflokkurinn Nei. Miðflokkurinn vill þó árétta að hann er skýrasti valkostur þeirra sem vilja standa vörð um í fullveldi landsins. Miðflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi alþjóðlegrar samvinnu þar sem Ísland kemur fram sem frjáls og fullvalda þjóð. Flokkurinn vill áframhaldandi góða samvinnu við þjóðir Evrópu þó að eftir atvikum geti verið nauðsynlegt að endurmeta og skoða einstaka liði þeirrar samvinnu enda lifum við í síbreytilegum heimi.
Píratar Flokkurinn hefur ekki opinbera afstöðu gagnvart aðild en sér marga góða kosti við að ganga í ESB fyrir íslenskt samfélag.
Samfylking Já. Samfylkingin telur að aðild ESB og upptaka evru yrði í stórum dráttum til hagsbóta fyrir Ísland – en flokkurinn leggur áherslu á að ekki verði framhald á aðildarviðræðum Íslands og ESB nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sjálfstæðisflokkur Nei. Sjálfstæðisflokkurinn telur að aðild að Evrópusambandinu og upptaka evru væri til ekki hagsbóta fyrir Ísland. Þróun síðasta áratugar eða svo, þar sem Ísland hefur vaxið mun hraðar en ríki Evrópu og gengi krónunnar hefur verið stöðugt, sýnir svo ekki verður um villst að sjálfstæður gjaldmiðill þjónar hagsmunum okkar best. Flokkurinn telur að aðild að ESB myndi takmarka sjálfstæði Íslands í efnahagsmálum og löggjöf.
Sósíalistaflokkurinn Það fer alveg eftir því hvernig „ESB“ er verið að tala um. Það er mikil gerjun í skipulagi samtakanna og erfitt að sjá hvernig þróunin verður. Sósíalistar eru alþjóðasinnar sem styðja alþjóðlega samvinnu en teljum að slík samvinna verði að vera á forsendum fólksins, ekki fjármagnsvaldsins.
Viðreisn Já, en það mun koma endanlega í ljós að gerðum aðildarsamningi.
Vinstrihreyfingin grænt - framboð. Sjá svar við spurningu 1.