Yellow lighthouse on rocky pier with snow, overlooking ocean and snow-covered mountains in the distance under a partly cloudy sky.

Sýn og stefna

Evrópuhreyfingin var stofnuð Evrópudaginn 9. maí 2022 af hópi fólks úr ýmsum áttum með ólíkar stjórnmálaskoðanir. Fólki með sameiginlega sýn um að nauðsynlegt sé að efla umræðu um Evrópu- og alþjóðamál og leiða fram þjóðarvilja um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

Öll erum við sammála um að Ísland á að vera virkur þátttakandi í samfélagi þjóða á alþjóðavettvangi.

Ísland tekur þegar þátt í margvíslegu samstarfi og hefur sýnt og sannað að það hefur margt til málanna að leggja og sækir þangað styrk.

Stærsta samvinnuverkefni Evrópuþjóða er Evrópusambandið. Þar undir eru grundvallaratriði á borð við frið, lýðræði, réttarríki, mannréttindi, umhverfis- og loftslagsmál, öryggismál og viðskipti.

Öll erum við sammála um að brýnt sé að ræða í fullri alvöru og af yfirvegun um stöðu Íslands í alþjóðasamfélaginu, ekki síst um aðild Íslands að Evrópusambandinu. Til þess þarf þátttöku sem flestra.

Íslenska þjóðin hefur aldrei verið spurð hvort Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið. Löngu er tímabært að það verði gert. Fyrsta skrefið í þeirri vegferð er að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi aðildarviðræður að nýju.

Lög Evrópuhreyfingarinnar

  1. Félagið heitir: Evrópuhreyfingin.

  2. Heimili félagsins og varnarþing er í Reykjavík.

  3. Tilgangur félagsins er að vinna að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið og efla umræður og fræðslu um Evrópu- og alþjóðamál.

  4. Tilgangi sínum hyggst félagið ná með söfnun félagsmanna, öflun fjár, fundahöldum, ráðstefnum, auglýsingum og annarri þeirri starfsemi sem til þess fallin að markmiðin náist.
    Félagið verður fjármagnað með styrkjum, frjálsum framlögum og félagsgjöldum.

  5. Félagið er öllum opið sem vilja vinna að markmiðum þess og skal félagið halda sérstaka félagaskrá.

  6. Stjórn félagsins er kjörin af félagsmönnum og skal skipuð sjö félagsmönnum, þ.e. formanni og sex meðstjórnendum. Stjórnarmenn skulu kosnir til árs í senn. Formaður boðar stjórnarmenn á stjórnarfundi þegar þurfa þykir. Daglega umsjón félagsins annast stjórn félagsins. Firmaritun félagsins er í höndum meirihluta stjórnar.
    Engin laun eða þóknanir eru greidd fyrir setu í stjórn félagsins.

  7. Starfstímabil félagsins er almanaksárið. Stjórn félagsins heldur aðalfund einu sinni hvert almanaksár og aðra fundi eftir því sem ástæða er til og skal til þeirra boðað með tryggilegum hætti. Á aðalfundi félagsins skal skal stjórn gera upp árangur liðins árs. Aðeins félagsmenn mega vera þátttakendur á aðalfundi. Meirihluti atkvæða á fundi ræður úrslitum mála sé annað ekki tekið fram. Heimilt er að halda alla fundi félagsins rafrænt ef þurfa þykir.

  8. Félagið þiggur fjárframlög og styrki frá einstaklingum, samtökum, stofnunum og fyrirtækjum er vilja veita markmiðum þess brautargengi, en þó aðeins ef þeim fylgja engar kvaðir um ráðstöfun, nýtingu eða starfsemi félagsins.

  9. Öllum hagnaði af starfsemi félagsins skal varið til þess að sinna tilgangi félagsins skv. 3. og 4. grein.

  10. Ákvörðun um slit félagsins verður tekin á stjórnarfundi með einföldum meirihluta.
    Hreinar eignir þess skulu renna til félaga með hliðstæðan tilgang og lýst er í 3. grein eða til góðgerðarfélaga skv. nánari ákvörðun stjórnar.

Lög þessi voru samþykkt á stofnfundi félagsins 9. maí 2022, breytt á félagsfundi þann 21. september 2022 og á aðalfundi 4. febrúar 2023 og öðlast þegar gildi.