Davíðssvarið dregið fram á ný

12. ágúst 2025

Margt er notað þessa dagana til að hræða fólk frá því að vilja taka afstöðu til áframhaldandi aðildarviðræðna við Evrópusambandið og eru sumir duglegri en aðrir í því. Einn hinna duglegustu er fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins, Sigurður Kári Kristjánsson og hefur hann nú dregið fram í umræðuna það sem stundum er kallað “Davíðssvarið” og snýst um hversu mikið af gerðum Evrópusambandsins Ísland hafi innleitt sem EES ríki.

Davíðssvarið á uppruna sinn í fyrirspurn Sigurðar Kára frá árinu 2004 þegar hann sat á þingi, til þáverandi utanríkisráðherra, Davíðs Oddssonar, sem er í dag ritstjóri Morgunblaðsins og eins og mörg vita helsti andstæðingur Evrópusambandsaðildar Íslands til áratuga.

Davíðssvarið var samið til að fá ákveðna niðurstöðu í pólitískri umræðu þess tíma, sem gekk út á hversu mikið af Evrópureglum Ísland væri að innleiða sem EES ríki miðað við það sem aðildarríkin innleiddu. Það svaraði fyrirspurn Sigurðar Kára á þá leið að telja meira og minna allar gerðir sem Evrópusambandið hafði sent frá sér á tíu ára tímabili (1994-2004), m.a. mikinn fjölda gerða sem flest ESB ríki innleiddu ekki heldur, (sem dæmi þarf oft lagalega ákvörðun hjá Evrópusambandinu t.d. þegar ákveðið er að niðurgreiða einstaka búvörur til einstakra bænda í einstaka aðildarríkjum) en vantaldi hundruð ef ekki þúsundir gerða sem innleiddar höfðu verið á annan hátt en í gegnum EES samninginn, t.d. þær sem afgreiddar voru með sérstökum hætti fyrir sameiginlegu EES nefndinni, sem og þær sem fylgdu EES samningnum sjálfum í upphafi. Í Davíðssvarinu, sem Sigurður Kári hefur nú dregið fram í umræðuna á ný, er talað um að Ísland hafi innleitt um 6,5% af slíkum gerðum og þar með látið að því liggja að allt tal um að Ísland sé að stórum hluta þegar í Evrópusambandinu sé rangt.

Eiríkur Bergmann, prófessor, skoðaði í doktorsrigerðinni sinni frá árinu 2009 þessi mál afar vandlega og komst að þeirri niðurstöðu að staðan væri afar sambærileg í aðildarríkjum Evrópusambandsins þegar kemur að innleiðingu alls þess sem Evrópusambandið sendir frá sér. Hann komst að því að sænski fræðimaðurinn Fredrik Sterzel hafði beitt sömu aðferðafræði árið 2001 við að telja það hlutfall af regluverðarverki sem Svíþjóð hafði, sem aðildarríki, innleitt og fékk sá svipaða útkomu fyrir ESB ríkið Svíþjóð og Davíð fékk fyrir Ísland. Fræðimenn frá öðrum Evrópusambandsríkjum, t.d. Hollandi komust að sambærilegri niðurstöðu. Útfrá niðurstöðu Sterzels mátti hinsvegar sjá að Ísland, utan Evrópusambandsins en í EES, hafði innleitt tæplega 86% af þeim gerðum sem Svíþjóð sem aðildarríki hafði innleitt.

Niðurstaðan er einfaldlega sú að stundum er hægt að nota tölfræði til að blekkja fólk og Davíðssvarið er skólabókardæmi um hvernig það er gert. Eftir stendur að Ísland innleiðir, sem EES ríki, megnið af þeim gerðum sem snerta innri markað Evrópusambandsins og við erum sem slík í þeirri stöðu að þurfa að taka upp reglur sem við höfum á engu stigi máls haft aðild að að búa til. Það er óþolandi staða fyrir fullvalda ríki, eins og ítrekað hefur komið fram t.d. í skýrslum norsku ríkisstjórnarinnar um EES, en Noregur er í sömu stöðu og Ísland hvað þetta varðar.

Þessu höfum við tök á að breyta og fyrsta skrefið í átt til þeirrar valdeflingar okkar sem þjóðar er hægt að taka með því að styðja það að Ísland klári aðildarsamninga við Evrópusambandið. Áfram Ísland!

Previous
Previous

Meiri bjartsýni - minni svartsýni

Next
Next

Sterk staða – sterkari framtíð: Hvers vegna Ísland á erindi í Evrópusambandið