Víst blómstrar Evrópa
Á námsárum mínum í Vestur-Berlín var hægt að horfa á útsendingar frá ríkissjónvarpi Austur-Þýskalands. Aðallega var um að ræða fréttaefni sem var ritstýrt af yfirvöldum og fræðsluefni sem innihélt pólitískan áróður um ágæti hins Austur-Þýska alþýðulýðveldis (þ. DDR).
Á hverjum þriðjudegi var sýndur þáttur sem hét Svarta Stöðin (þ. Der Schwarze Kanal). Um var að ræða endalausa upptalningu á kostum Austur-Þýskalands og hræðsluáróður um hið ömurlega líf í Vestur-Þýskalandi og Vestur-Evrópu almennt.
Sagt var aftur og aftur að Vestur-Þýskaland væri eins og brennandi hús sem ætti að forðast.
Fullyrt var að þar væri allt á niðurleið með vaxandi atvinnuleysi og engum hagvexti.
Í þessum þáttum var ítrekað sagt hvað Vestur-Evrópa væri að niðurlotum komin og ætti enga framtíð fyrir sér. Þar væri atvinnulífið að arðræna almenning. Varað var við sameiningu þýsku landanna og að almenningi liði mun betur austan megin við Berlínarmúrinn en vestan.
Endalaus hræðsluáróður dundi á íbúum landsins og var sífellt varað við þeirri martröð sem fylgdi því að sameinast Vestur-Þýskalandi.
Staðreyndin var sú að Austur-Þýskaland var langt á eftir Vestur-Þýskalandi í velferð og lífsgæðum enda kusu íbúarnir með fótunum og risu upp gegn stjórnvöldum sem leiddi til sameiningar Þýskalands eftir fall múrsins árið 1989.
Kannast þú við þennan hræðsluáróður?
Ég hef í fyrri pistlum mínum rætt um það sem ég kalla þáttaröðina „Evrópa brennur“ í Morgunblaðinu. Þetta eru pistlar þar sem er ítrekað fullyrt að Evrópa sé að brenna og að þar sé allt á niðurleið með atvinnuleysi og engum hagvexti, engri nýsköpun og gjaldþrota velferðarkerfi.
Pistlahöfundar keppast við að tala niður sína eigin heimsálfu og gera lítið úr árangri hennar.
Fullyrt er að Evrópa sé að hruni kominn og að Ísland eigi ekkert erindi í þetta „brennandi hús“.
Fyrrverandi utanríkisráðherra okkar lýsti því yfir á Sprengisandi á sunnudaginn að aðild að Evrópusambandinu væri „martröð almennings“ á Íslandi.
Stundum finnst mér eins og að Svarta stöðin í Austur-Þýskalandi hafi verið endurvakin á Íslandi.
Þessi hræðsluáróður verður hlægilegur þegar staðreyndir málsins eru skoðaðar.
Evrópa blómstrar
Þvert á það sem ofangreindir pistlahöfundar skrifa þá er Evrópa í dag dæmi um velmegun sem heimurinn hefur aldrei áður séð.
Við erum að tala um heimsálfu sem hefur skapað fordæmalausa velmegun og öryggi borgaranna.
Þú getur sem dæmi synt í hvaða sjó við strendur Evrópu þökk sé hörðum umhverfisreglum.
Matvælaeftirlit er það strangasta í heiminum og hvergi er ódýrara að hringja milli landa.
Allt þetta er vegna „reglugerðarfargans frá Brussel“ eins og vinsælt er að segja hér á landi.
Rifjaðu upp síðustu ferð þína til Evrópu. Gakktu í huganum um götur Kaupmannahafnar, Berlínar, Vínar eða Parísar og reyndu að halda því fram að þetta sé heimsálfa í hnignun.
Evrópsk lönd skora hæst í öllum lífsgæðakönnunum sem eru framkvæmdar.
Klárir krakkar úr verkalýðsfjölskyldu geta komist í háskóla án þess að lenda í skuldasúpu til æviloka eins og gerist í Bandaríkjunum. Fólk fær lækningu við krabbameini án þess að þurfa að verða gjaldþrota eins og gerist hjá um 600 þúsund fjölskyldum vestanhafs á ári hverju.
Ungt fólk í ESB löndum getur keypt íbúð á lánum í evrum með um 3% óverðtryggðum vöxtum eða um þriðjungi af vaxtakjörum hér á landi.
Staðreyndir tala sínu máli
Evrópusambandið er öflugasta ríkjabandalag veraldar og farsælasta samvinnuhreyfing í heiminum. Hún var stofnuð þegar Evrópa var í rúst eftir mesta blóðbað í sögu heimsins og hefur tryggt frið í ESB löndum í um 80 ár sem er lengsta friðartímabil í sögu álfunnar.
Þar búa um 450 milljónir manna í einu besta velferðarkerfi heims sem tryggir íbúum jafnan aðgang að heilbrigðis- velferðar- og menntakerfi.
Í Evrópusambandinu er tollfrelsi á vörum og þjónustu. Ferðafrelsi almennings er óhindrað og 21 land af 27 notar sameiginlegan gjaldmiðil sem hægt er að nota í viðskiptum og á ferðalögum.
Í löndunum er lág verðbólga, stöðugur hagvöxtur og minnkandi atvinnuleysi. Verð á matvælum og drykkjarvörum er um helmingi lægra en hjá okkur.
ESB byggir á hugmyndinni að ríki hagnist meir á samvinnu en ófriði. Thomas Friedman rithöfundur sagði nýlega: „Evrópusambandið er ein mesta uppfinning nútímamannsins.“
Við Íslendingar eigum heima í þessari nútíma samvinnuhreyfingu.
Við eigum þrjá valkosti
Staðan í alþjóðamálum hefur breyst mikið á undanförnum mánuðum. Heimurinn er í eins konar upplausn. Sú heimsmynd og þau kerfi sem sett voru á fót í kjölfar heimsstyrjaldarinnar síðari eru nú nálægt því að riða til falls.
Við erum með þrjú stórveldi í heiminum með mikinn hernaðarmátt og vaxandi alræðishyggju: Bandaríkin, Kína og Rússland.
Á milli þeirra liggur Evrópa þar sem ríkir víðtækt samstarf fullvalda lýðræðisríkja.
Bandaríkin hafa í raun sagt sig úr bandalagi vestrænna þjóða og hafið tollastríð við flest þeirra, þar á meðal Ísland. Trump hefur sagt að hann muni ekki virða alþjóðalög, þurfi aðeins að hugsa um eigin hagsmuni og að landið hans þurfi enga bandamenn.
Við Íslendingar höfum í raun aðeins um þrjá valkosti að velja í utanríkismálum:
að vera hlutlaust land.
að halla okkur að Bandaríkjunum og vera á áhrifasvæði þeirra.
að auka samvinnu við Evrópu með fullri aðild að ESB, auk NATO
Við Íslendingar munum á næstu mánuðum taka þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu um það hvort viðræðum við Evrópusambandið sé haldið áfram eða ekki.
Ég hvet þig ágæti lesandi að taka þátt í þessum lýðræðislegu kosningum þar sem öll atkvæði hafa sama vægi og segja JÁ við spurningunni sem verður lögð fyrir þig.
Í kjölfarið verður kosið um fulla aðild sem myndi tryggja varnaröryggi, sjálfstæði og fullveldi landsins okkar. Við munum halda yfirráðum yfir öllum okkar auðlindum og fá fullt tollfrelsi á vörum og þjónustu landsins okkar.
En umfram allt; ekki treysta á upplýsingar um þetta mál frá Svörtu stöðinni. Á vefsvæðinu www.evropa.is er að finna gagnlegar upplýsingar um málið.