Framtíðin: Verður kosið í haust?
11. janúar 2026
Fimmta fréttabréf Evrópuhreyfingarinnar
Kæru félagar
Evrópuhreyfingin vaknaði upp við þau góðu tíðindi á nýju ári að til standi að leggja fram þingsályktunartillögu á vorþingi um þjóðaratkvæði um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Andstæðingar Evrópusambandsins á þingi geta leyft sér að fara í málþóf gegn lýðræðinu, en þegar tillagan verður samþykkt mun ríkisstjórnin hafa ár til að láta af atkvæðagreiðslunni verða.
Þetta þýðir að annað hvort verður kosið í haust, samanber okkar heitustu drauma, eða næsta vor sem verður að teljast líklegri niðurstaða.
Hvers vegna skiptir máli að drífa þetta af?
Í fyrsta lagi því þjóðin er tilbúin. Það gagnast engum að draga þetta skref lengur og algjör óþarfi að rífast um það að leggja stór mál í dóm þjóðarinnar. Ein atkvæðagreiðsla um hvort þjóðin vilji sækja um aðild að ESB þarf ekki margra ára undirbúning.
Í öðru lagi vegna aðildarsamningsins sem var í smíðum 2010-2013. Samkvæmt okkar bestu heimildum þyrfti ekki að taka langan tíma að klára aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu í þessari umferð, því mörgum köflum hafði þegar verið lokið af hálfu bæði Íslands og ESB. Að sjálfsögðu yrðu þessir kaflar skoðaðir á ný en þungi vinnunnar hefur þegar farið fram.
Þetta þýðir að ef stjórnvöld halda á spöðunum, gæti þjóðin kosið um aðild að ESB fyrir Alþingiskosningar 2028 og þingið klárað sín praktísku mál fyrir og eftir þær kosningar.
Er þetta raunhæft? Já ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Evrópuhreyfingin mun að sjálfsögðu standa sína plikt og þrýsta á um að svo verði. Það er eftir engu að bíða. Framtíðin er rétt handan við hornið.
Þangað til næst, framtíðarkveðjur!