Ályktun frá stjórn vegna Grænlands

Það hefur aldrei verið jafn brýnt og nú að Ísland taki afdráttarlausa afstöðu til eigin öryggis og framtíðar. Þegar stjórnvöld í  Bandaríkjunum ógna nágrönnum okkar á Grænlandi og lýsa yfir ásetningi um að sölsa undir sig landsvæði í aðeins um 290 km fjarlægð frá íslenskum landamærum, blasir við nýr veruleiki þar sem valdbeiting og yfirgangur stórvelda er ekki lengur fræðileg hætta heldur raunveruleg ógn.

Í slíkum aðstæðum er ábyrgðarlaust að láta sem Ísland geti staðið eitt, eða að traust á varnarsamstarf okkar við Bandaríkin tryggi hagsmuni okkar. Smáríki mega sín lítils í heimi þar sem lögmál aflsmuna ráða för. Aftur á móti styrkja þau pólitískt sjálfstæði sitt og fullveldi með þátttöku í bandalögum sem lúta skýrum reglum.

Evrópusambandið er slíkt bandalag. Það er pólitískt og efnahagslegt samstarf ríkja sem hafna landránum, virða fullveldi og byggja samskipti sín á gagnkvæmri virðingu, lýðræðislegum gildum, mannréttindum, alþjóðalögum og trú á gagnsemi frjálsra viðskipta. ESB grefur ekki undan sjálfstæði ríkja. Þá er rétt að minna á að meðal aðildarríkja ESB ríkir gagnkvæm varnarskylda.

Stjórn Evrópuhreyfingarinnar ályktar að nú þurfi íslensk stjórnvöld að boða til atkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við ESB hið fyrsta. Það er niðurstaða hreyfingarinnar að hagsmunum Íslands sé best borgið með því ganga til liðs við Evrópusambandið og vera þar í hópi líkt þenkjandi, fullvalda þjóða, m.a. þriggja annarra Norðurlanda. Íslenska þjóðin á að eiga síðasta orðið og það er brýnt að hún fái að segja álit sitt sem fyrst.   


Next
Next

Framtíðin: Verður kosið í haust?