Framtíðin: Sjokkerandi pælingar í pontu Alþingis
14. desember 2025
Þriðja fréttabréf Evrópuhreyfingarinnar
Kæru félagar
Evrópumálin halda áfram að vera ofarlega í deiglunni, eins og við var að búast.
Í vikunni varpaði varaformaður Miðflokksins því fram í pontu Alþingis, án ábyrgðar eða umhugsunar, að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan EES til að hafa meiri stjórn á fólksflutningum til Íslands. Eðli máls samkvæmt reis þingheimur upp á afturlappirnar gegn þessari skaðlegu skoðun, sem tvímælalaust myndi kalla kreppu yfir land og þjóð, eyða öllum hagvexti hér og skerða frelsi Íslendinga verulega. Segja má að þverpólitísk sátt hafi náðst á þingi gegn þessum málflutningi varaformannsins, en gegn þessu var talað úr röðum Framsóknar, Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Samfylkingar.
Til að allrar sanngirni sé gætt bakkaði þingmaðurinn með þessa jaðarskoðun sína degi síðar, sakaði þingmenn um að blása orð sín upp og sagði í raun engan tala fyrir því að ganga úr EES-samstarfinu. En hugmyndinni hefur verið fleygt á loft og full ástæða til að gjalda varhug við henni. Á síðustu árum hefur stjórnmálaumræða Vesturlanda tekið stökkbreytingu með einmitt slíkum tilraunum; þar sem skaðlegum hugmyndum er hent á loft í hálfkæringi í fyrstu og þær síðar dregnar upp aftur og aftur þar til um meginstraumsskoðun verður að ræða. Látum þetta mál ekki verða dæmi um slíkt.
EES undirstaða íslenskrar velferðar
Fyrir hreina tilviljun er EES samstarfið umræðuefni dagsins í Meginlandinu, hlaðvarpi Evrópuhreyfingarinnar.
Að þessu sinni er Dóra Sif Tynes, lögmaður og sérfræðingur í Evrópurétti gestur þeirra Páls Rafnar Þorsteinssonar og Helgu Völu Helgadóttur. Þetta er fróðlegur þáttur um kosti EES fyrir Ísland og hvers vegna við eigum allt undir því.
Þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna
Ný Þjóðaröryggisstefna Bandaríkjanna hefur sömuleiðis verið hitamál um allan heim undanfarna daga.
Þar er þvi ranglega haldið fram að Evrópa sé veik, og jafnvel að hruni komin.
Formaður Evrópuhreyfingarinnar, Magnús Árni Skjöld Magnússon mætti ásamt Davíð Stefánssyni, formanni Varðbergs, í Morgunútvarpið á Rás 2 í vikunni til að ræða stefnuna á mannamáli.
Ríkið styrkir Já og Nei hreyfingar
Í liðinni viku var birt lítil fréttatilkynning á vef stjórnarráðsins um úthlutun opinbers fjármagns til handa lýðræðislegrar umræðu um aðildarviðræður Íslands að Evrópusambandinu. Já og Nei hreyfingarnar, þ.e. Evrópuhreyfingin og Heimssýn, fá 10 milljónir hvor um sig og Vísindavefur Háskóla Íslands fær 5 milljónir til að halda uppi lýðræðislegri umræðu um málið.
Við erum afskaplega ánægð með okkar styrk en höldum áfram að safna fyrir frekara starfi frá einstaklingum og fyrirtækjum.
Eins og framkvæmdastjóri hreyfingarinnar, Snærós Sindradóttir, útskýrði í viðtali í Samfélaginu á Rás 1 í vikunni, eru 10 milljónir ekki nóg til að halda uppi öflugri baráttu fyrir betra Íslandi.
Við ætlum okkur stóra hluti og sjáum að augnablikið til að stíga skrefið inn í bandalagið, með vinaþjóðum okkar, er akkúrat núna.
Gjaldkerinn Thomas í banastuði
Að lokum er full ástæða til að nefna sterkar innkomur Thomasar Möller, gjaldkera Evrópuhreyfingarinnar í þjóðfélagsumræðuna.
Í líflegri grein um krónuna fór Thomas yfir sögu íslensku krónunnar og hvernig flótti íslenskra fyrirtækja úr krónuhagkerfinu er nú þegar hafinn.
Í viðtali við Rauða Borðið á Samstöðinni ræddi hann svo um afstöðu Trump-stjórnarinnar til Evrópu og nýja heimsskipan.
Smellið á myndirnar til að sjá meira: