Þjóðaratkvæðagreiðslan vekur athygli

Ritari Evrópuhreyfingarinnar, Dóra Magnúsdóttir, sótti ársfund European Movement International (EMI) fyrir helgi, en alþjóðlega Evrópuhreyfingin samanstendur af 35 hreyfingum og samtökum bæði innan og utan Evrópusambandsins, sem eiga það sameiginlegt að vinna að Evrópuhugsjóninni í víðu samhengi.


Fundurinn var haldinn Kaupmannahöfn í boði dönsku Evrópuhreyfingarinnar og voru umræðurnar af ýmsum toga; áskoranir Evrópusamstarfs víðsvegar sem og starf Evrópuhreyfinga í álfunni allri. Síðdegis á fimmtudegi 21. nóvember voru umræður undir heitinu Ljós úr norðri: Ísland, Noregur og líkurnar á aðild að Evrópusambandinu (Nordic Lights: Iceland, Norway, and the Prospects of EU Membership) en þar tók Dóra þátt ásamt varaformanni norsku Evrópuhreyfingarinnar, Knut André Sande, og Bente Sorgenfrey varaformanni dönsku hreyfingarinnar.

Pallborðsumræður undir yfirskriftinni:  Nordic Lights: Iceland, Norway, and the Prospects of EU Membership. Frá vinstri: Petros Fassoulas, Secretary General Alþjóðlegu Evrópuhreyfingarinnar,  Dóra Magnúsdóttir ritari Evrópuhreyfingarinnar, Knut André Sande, varaformaður norsku Evrópuhreyfingarinnar og Bente Sorgenfrey varaformaður dönsku Evrópuhreyfingarinnar.

Umræðurnar voru líflegar eins og búast mátti við og vakti hugmyndin um þjóðaratkvæðagreiðslu Íslendinga nokkra athygli. Fulltrúi Noregs sagði að það yrði einmanalegt innan EES samstarfsins ef Íslendingar myndu ákveða að hefja aðildarviðræður við ESB og enn frekar ef niðurstaðan yrði sú að landið tæki fullt skref inn í sambandið. Það myndi að öllum líkindum auka líkur Grænlendinga á að ganga aftur í sambandið enda hafa hugmyndir Trumps Bandaríkjaforseta á að innlima landið í Bandaríkin sett hugmyndir um endurkomu þess í sambandið aftur á dagskrá. Dóra taldi upptöku evru einna sterkustu rökin fyrir áhuga Íslendinga á aðild en Knut segir Norðmenn almennt ekki hafa áhuga á að taka upp evru. Aðrir þættir vegi þar þyngra, svo sem varnarsamstarf og viðskiptasjónarmið.

Karen Jensen, pólitískur ráðgjafi Evrópuhreyfingarinnar, Nick Harvey, formaður stjórnar Evrópuhreyfingarinnar í Bretlandi, Dóra Magnúsdóttir, ritari íslensku Evrópuhreyfingarinnar, Petros Fassoulas, Secretary General (aðalritari)  alþjóðlegu Evrópuhreyfingarinnar- EMI

Starf hreyfinganna 35 er ólíkt enda starfa þær í ólíku umhverfi og eru misöflugar. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að trúa á Evrópuhugsjónina; að fólkið í álfunni standi sterkar saman en sundrað. Rætt var um ris öfga-hægrisins og birtingamyndir þess, auk þess fengu umræður um öryggismál, breytta heimsmynd, ógnir úr austri og breytt samband Evrópu við Bandaríkin á tímum Trump (European Defence & Security in the age of Trump) ríkt pláss í umræðu fundarins.

Next
Next

Nýtt fréttabréf lítur dagsins ljós